Mannréttindi

Siðastaliðin 21 mars var haldin alþjóðlegur dagur gagnvart rasísma og í tilefni dagsins finnst mér tilvalið að vera með drog af erindi á ráðstefnu Stúdentaráð sem var haldin í desember 2003.

Erindi á ráðstefnu Stúdentaráðs 1. des – um fordóma og mannréttindi.  21. mars er alþjóðlegur dagur Sameinuðu þjóðanna gegn kynþáttmisrétti. Barátta gegn kynþáttamisrétti er barátta fyrir mannréttindum.  Tilgangur Sameinuðu þjóðanna er meðal annars sá að koma á alþjóðasamvinnu til að stuðla að virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsisréttindum allra. Grundvallarregla í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum er bann við mismunun vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.  Þetta bann við mismunun kemur fyrst fram á alþjóðavettvangi í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 1945.  Frá þeim tíma varð bann við mismunun sem á við alla einstaklinga hluti af skráðum og viðurkenndum alþjóðalögum og er af mörgum talið ein mikilvægasta reglan í alþjóðlegum mannréttindalögum.  Ef ofsóknir þær og þjóðarmorð á gyðingum sem áttu sér stað í Heimsstyrjöldinni síðari, eða þær siðlausu athafnir “sem ofboðið hafa samvisku mannkynsins” eins og segir í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna eru hafðar í huga er ekki að undra að bann við mismunun, hafi verið veitt það vægi sem gert var í mótun alþjóðlegra mannréttindalaga.  Ofsóknir og þjóðarmorð á gyðingum, aðskilnaðarstefnan í Norður-Ameríku og Suður-Afríku – allt atburðir sem eru sögulega nálægt okkur í tíma - byggja á hugmyndum um að hægt sé að aðgreina fólk í kynþætti og að sumt fólk sé göfugra og skuli njóta meiri virðingar og réttinda en annað.    Árið 1965 var samþykktur af Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna alþjóðasamningur um afnám alls kynþáttamisréttis. Í inngangi að samningnum má lesa að hann byggir á þeirri sannfæringu “að allar kenningar um yfirburði á grundvelli kynþáttar, séu vísindalega rangar, siðferðislega fordæmanlegar, félagslega óréttlátar og hættulegar og að kynþáttamisrétti sé aldrei og hvergi réttlætanlegt, hvorki fræðilega né í framkvæmd.” Ennfremur að “hindranir á grundvelli kynþáttar séu ósamrýmanlegar hverju mannlegu samfélagi.”  Ísland fullgilti þennan samning  árið 1967. En fullgilding á samningnum leggur ýmsar skyldur á herðar aðildarríkjum til þess að koma í veg fyrir og útrýma kynþáttamisrétti bæði með lagasetningu og aðgerðum. Það er staðreynd að á Íslandi verður fólk fyrir fordómum og árásum vegna uppruna síns. En kynþáttahatur og mismunun á grundvelli etnísks uppruna er refsivert athæfi samkvæmt lögum á  Íslandi.  Í almennum hegningarlögum, 233. grein, a. Segir   "Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar,  trúarbragða eða kynhneigðar sæti sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 2 árum."  Einnig er í hegningarlögunum ákvæði sem gerir refsivert að mismuna fólki í þjónustu og aðgangi að opinberum samkomustöðum eða stöðum sem opnir eru almenningi.  Einnig er mikilvægt að minna á að í  stjórnarskrá Íslands, segir í 65. grein. "Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.”    Undanfarin misseri hefur töluvert borið á málflutningi sem byggir á kynþáttahatri. Í umræðu um þetta hafa oftsinnis komið fram þau sjónarmið að það megi ekki þegja slíkar skoðnir í hel, að þær dæmi sig sjálfar. En kynþáttahatur er ekki skoðun, það er glæpur. Málflutningur sem byggir á mannhatri og hvetur til mismununar gagnvart fólki eftir kynþætti eða til ofbeldis gegn því, er hættulegur. En slíkur málflutningur er ekki bara hættulegur hann er einnig bannaður samkvæmt lögum á Íslandi. Í stjórnarskrá Íslands segir í 73. grein, “Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.” Slík takmörkun á tjáningarfrelsi hefur verið sett í íslensk lög með þeirri grein hegningarlaga sem ég sagði frá áður og gerir það refsivert að ráðast gegn manni eða hóp manna með rógi, smánun eða ógnun vegna kynþáttar, þjóðernis eða litarháttar.  Íslensk stjórnvöld hafa ekki gengið eins langt og Sameinuðu þjóðirnar mælast til í því að banna samtök sem byggja hugmyndafræði sína á kynþáttahatri, enn sem komið er. En segja má að siðferðisviðmið íslensks samfélags hvað varðar fordæmingu á kynþáttamisrétti og kynþáttahatri hafi verið sett bæði með aðild Íslands að samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám alls kynþáttamisréttis og ísenskum lögum. Þessi siðferðislegu viðmið verður að hafa í heiðri og það er ábyrgð alls samfélagsins, opinberra stofnanna, stjórnmálamanna, fjölmiðla og almennra borgara.  Málflutning sem felur í sér mannhatur og hvetur til ofbeldis gagnvart fólki á grundvelli uppruna þess verður að fordæma og muna að sagan hefur kennt okkur og samtíminn sýnir okkur einnig að það er aðeins stigsmunur á milli málflutnings sem þessa og ofbeldisfullra aðgerða.      Hugmyndin um mannréttindi gengur fyrst og fremst út á samband ríkisins og einstaklingsins. Í hefðbundnum skilningi er tilgangur mannréttinda að reisa með lagalegri vernd  “skilrúm” á milli einstaklingsins og ríkisins til þess að vernda frelsi og sjálfsákvörðunarrétt hans gegn valdi ríkisins. Hugmyndin gengur ennfremur út frá því að mannréttindi séu náttururéttindi sem einstaklingurinn öðlast fyrir það eitt að vera manneskja og að með viðurkenningu þessara mannréttinda séu samfélaginu sett takmörk gagnvart einstaklingnum og réttindi einstaklingsins hafi því forgang yfir réttindum samfélagsins. En lagaleg vernd er bara einn þáttur í að tryggja frelsi og réttindi einstaklingsins. Það þarf einnig að tryggja að virkni eða starfsemi allra eininga samfélagsins svo sem fyrirtækja og félaga taki mið af virðingu fyrir einstaklingnum og réttindum hans, ef aðrar einingar samfélagsins en ríkisvaldið eru undanskilidar ábyrgðinni er verið að gleyma mjög áhrifamiklum pólitískum og hugmyndafræðilegum þáttum því gildismatið sem mannréttindi byggja á þarf að vera virt á öllum sviðum samfélagsins til þess að hægt sé að tala um að félagslegt réttlæti sé fyrir hendi. Ástæðan fyrir því að ég hef umfjöllun mína á þessum skilgreiningum er sú að ég tel að umræða um fordóma og mannréttindi eða vernd gegn mismunun þurfi að fara fram með tilliti til þessa, hverju sem fordómarnir og misréttið kunna að tengjast, en í þessu erindi ætla ég eingöngu að fjalla um fordóma og mismunun sem byggja á litarhætti og eþnískum uppruna eða kynþáttamisrétti.  Í alþjóðasamningi um afnám alls kynþáttamisréttis er “kynþáttamisrétti” skilgreint sem hvers kyns aðgreining, útilokun, takmörkun eða forgangur sem byggður er á kynþætti, litarhætti, ætterni eða þjóðernis- eða þjóðlegum uppruna sem hefur það markmið eða áhrif að koma í veg fyrir eða hamla að hægt sé að fá viðurkennd eða geta notið eða framfylgt á jafnræðisgrundvelli, mannréttindum og grundvallarfrelsi á sviði stjórnmála, efnahagsmála, félagsmála, menningarmála eða öðrum opinberum vettvangi.” Þessi samningur var settur fram eftir lok nýlendutímans en uppruni kynþáttahaturs er oftast rakinn til upphafs þess tíma. Vald hinna vestrænu ríkja yfir löndunum sem voru gerð að nýlendum varð til þess að framkalla einskonar yfirburðartilfinningu valdhafanna sem þannig réttlættu kúgun, arðrán og valdbeitingu gagnvart hinum innfæddu á öllum sviðum. Vísindum, m.a. líffræði og mannfræði var beitt til þess að meta fólk á vísindalegan hátt út frá líkamlegum og menningarlegum einkunnum og síðan búið til kerfi þar sem hvíti maðurinn tróndi á toppi pýramída, enda pýramýdinn unninn út frá gildismati evrópskra vísindamanna, og aðrir kynþættir skilgreindir sem óæðri þeim hvíta.  Tímabil nýlenduyfirráða , þjóðarmorð á gyðingum í heimstyrjöldinni síðari, aðskilnaðarstefnan í N-Ameríku og S-Afríku eru dæmi um kerfisbundna kynþáttaaðskilnaðarstefnu sem við skoðum í dag sem hræðileg dæmi um illsku mannsins. Þetta hefur verið kallað “stofnanabundið kynþáttahatur” þar sem ráðandi hópur mótar uppbyggingu samfélagsins, með lögum og reglum þannig að minnihlutahópurinn líður fyrir, býr við skert réttindi og verður fyrir kerfisbundinni mismunun. Staðalmyndirnar um kynþættina sem búnar voru til á meðvitaðan hátt á nýlendutímanum í ákveðnum pólitískum tilgangi eru við lýði enn þann dag í dag í vestrænum samfélögum og þó að ofantöld dæmi um kerfisbundna kynþáttaaðkilnaðarstefnu sem eru ekki tæmandi fyrir slíkt iúr mannkynssögunni séu í almennri umræðu ekki sett í samhengi við kynþáttafordóma og mismunun eins og hún birtist okkur í samtímanum þá eiga staðalmyndirnar sem eru undirstaða kynþáttafordóma sér rætur í þessum kerfum og hefur verið viðurkennt af alþjóðasamfélaginu að það eru bein tengsl á milli þessa og birtingarmynda kynþáttamisréttis í samtímanum. Dæmi um slíkt er það sem oftast er kallað  “Persónulegt kynþáttahatur” þar sem meðlimir hins ráðandi eþníska hóps í samfélaginu hafa í daglegu lífi frammi fordóma og niðrandi framkomu gagnvart einstaklingum einhvers ákveðins minnihlutahóps, sem er lagður í einelti eða hafður afskiptur vegna útlitslegra eða menningarlegra einkenna sinna. Fordómar sem einstaklingar innan samfélagsins hafa hafa oft þau áhrif að mismunun vegna eþnísks uppruna á sér stað. Til dæmis þegar einstaklingur eða hópur fólks er dæmdur eftir staðalmyndum en ekki sem einstaklingur þá er um að ræða fordóma. Einhver einstaklingur hefur skoðun á ákveðinni manneskju eða hópi án þess raunverulega að þekkja hann. Þessir fordómar eru særandi og þá sérstaklega þeir sem notaðir eru til að beita fólk órétti því þessir fordómar ræna fólk möguleikanum til að sýna hver það raunverulega er. Þetta getur til dæmis átt sér stað þegar einstaklingur sækir um vinnu og atvinnurekandinn dæmir hann eftir eþnískum uppruna hans og einhverri staðalmynd sem hann hefur um fólk af  þessum eþníska uppruna. Þannig eru fordómar og mismunun tvær hliðar á sama peningnum þegar sá sem hefur fordómana lætur þá hafa áhrif á hegðun sína og hefur vald til að taka ákvarðanir samkvæmt því. Þar sem fordómar stoppa yfirleitt ekki í höfðinu á fólki heldur hafa áhrif á hegðun þess eru fordómar rótin að einstaklingsbundnum tilfellum misréttis og orsaka það að einstaklingurinn sem fyrir fordómunum verður nýtur ekki jafnra tækifæra og réttinda í samfélaginu vegna eþnísks uppruna síns. Dæmi um svona einstaklingsbundna fordóma sem hafa áhrif á aðgengi og tækifæri fólks í samfélaginu eru stundum nefnd hversdagsrasismi og er í flestum tilfellum erfitt að sýna fram á þetta. Þó að það sé himin og haf á milli birtingamynda rasismans í þeim tilfellum sem voru talin hér áðan og rasisma eins og hann birtist okkur í dag má segja að það er ekki um að ræða eðlismun á þessum birtingarmyndum því hugsunin sem býr að baki er sú sama. Hugsunin um að sumar manneskjur séu meira virði en aðrar vegna eþnísks uppruna sína, hugsun sem byggir á því að það sé mögulegt að aðgreinina fólk í kynþætti og getur leitt af sér ýmist félagslega útilokun, tilviljanakennda mismunun eða hreinlega lögbundið misrétti. Og er það í raun háð því hversu víðtæka viðurkenningu hugmyndafræðin fær í samfélaginu hverjar afleiðingarnar eru sem leiðir okkur að áherslu alþjóðasamfélagsins á það að það sé ekki eingöngu nauðsynlegt að tryggja að kynþáttamisrétti eigi sér ekki stað heldur verði einnig að vinna gegn hugmyndafræðinni sem misréttið grundvallast á.  Við höfum nýlegt dæmi úr íslenku samfélagi um að lögunum hafi verið beitt vegna málflutnings sem byggir á hugmyndum um yfirburði eins kynþáttar og hvetur til kynþáttahaturs og misréttis. Ástæðan fyrir því að talið er mikilvægt að málflutningur sem einkennist af kynþáttahatri og hvetur til misréttis sé bannaður er vegna áhrifanna sem slíkur málflutningur hefur, tengslin á milli hugmyndafræðinnar og athafna sem leiða til misréttis og mannréttindabrota eru augljós bæði í sögulegum skilningi og í samtímanum. Slíkur málflutningur byggir á hugmyndafræði sem réttlætir það að takmarka réttindi fólks vegna uppruna þess og það er  einn mikilvægur þáttur í að vinna gegn misrétti að takmarka slíkan málflutning til þess að vernda þá sem málflutningurinn beinist gegn fyrir afleiðingum hans því hann hefur beinar afleiðingar á líf þeirra og þessi áhrif geta ýmist verið áreiti eða ofbeldisfullar árásir. – það er alþjóðlegt slagorð sem tengist þessu sem segir rasismi er ekki skoðun – rasismi er glæpur vegna þess að málflutningur sem einkennist af kynþáttafordómum felur í sér hvatningu til misréttis. Takmörkun málflutnings sem einkennist af kynþáttahatri og hvetur til misréttis samræmist tilgangi og anda alþjóðasamningsins um afnám alls kynþáttamisréttis, en í inngangi hans segir að ríki “sem eru sannfærð um að allar kenningar um yfirburði á grundvelli kynþáttar séu vísindalega rangar, siðferðislega fordæmanlegar, félagslega óréttlátar og hættulegar og að kynþáttamisrétti sé aldrei og hvergi réttlætanlegt, hvorki fræðilega né í framkvæmd.”   Sú hugmyndafræði sem ber hvað mest á í samtímanum til réttlætingar á fordómum og mismunun gagnvart eþnískum minnihlutahópum á vesturlöndum er svokallaður ný-rasismi. Talsmenn þessarar hugmyndar trúa á “náttúrulega mismunun” og staðhæfa að skoðun þeirra sé ekki byggð á kynþáttahatri þar sem hún byggi ekki á því að hægt sé að raða kynþáttunum í píramída eftir virði og þeir nota oftast ekki við hugtakið “kynþáttur”, heldur hugtök eins og “þjóðflokkur” og “eþnískur hópur” Þessi stefna viðurkennir að allir hópar mannkynsins séu í sjálfu sér jafnir að virðingu. Hins vegar sé menning þeirra mismunandi og ósamræmanleg og þess vegna verði ólíkir eþnískir hópar að búa aðskilið, þeir geti ekki búið í sama samfélagi. Þeir eru þeirrar skoðunar að þar sem fólksflutningar koma til og ólíkir menningarhópar búa saman séu átök óhjákvæmileg. Í málflutningi þeirra sem aðhyllast þessa hugmyndafræði eru vestur evrópskir innflyjendur samt alltaf undanskildir þessum takmörkunum og því ljóst af málflutning þessara hópa að þeir eru að hvetja til aðskilnaðar eftir litarhætti fyrst og fremst - þetta dulda kynþáttahatur er ef til vill ein hættulegasta mynd þess eins og það birtist okkur í dag þar sem málflutningur þeirra snýst á yfirborðinu fyrst og fremst um menningarmun.  Þessi hugmyndafræði svokallaðs ný-rasisma tengist mjög umræðu um innflytjendur á vesturlöndum og þar heyrist oft það viðhorf í opinberri umræðu að vestrænum samfélögum stafi ógn af innflytjendum að þeir skapi vandamál í samfélaginu, sérstaklega þeir sem eru af ólíkum uppruna. Að það verði að takmarka flutning þeirra sem eru frá ólíkum menningarsvæðum til evrópu vegna þess að þeir geti ekki aðlagast menningu vesturlanda. En hvað er átt við þegar talað er um að fólk af erlendum uppruna verði að aðlagast samfélaginu– er það að það aðhyllist trúarbrögð meirihlutans í ríkjum sem er stjórnarskrárvarið trúfrelsi ? Að það tali hið opinbera tungumál landsins lítalaust Að það taki upp einhver ákveðin hegðunar, fjölskyldu og neyslumynstur sem eru það fjölbreytt að ekki væri hægt að greina eitthvað eitt úr þeim sem einkennir þá sem tilheyra hinum eþníska meirihluta. Í þessari umræðu hefur verið ríkjandi krafan um nauðsyn þess að innflytjendur aðlagist samfélaginu án þess að skilgreina nánar hvað við er átt með aðlögun. Það eina sem er með réttu hægt að fara fram á er að allir íbúar landsins lúti lögum þess, að þeir njóti allir sömu réttinda og beri sömu skyldur. Það samræmist hugmyndinni um fjölmenningarlegt samfélag – þar sem það eru virk samskipti á milli þeirra ólíku eþnísku hópa sem búa í samfélaginu og menning allra hópanna nýtur sömu virðingar. En hugmyndin um fjölmenningarlegt samfélag gengur út á viðhald upprunalegrar menningar allra hópa, jafnt meirihluta sem minnihlutahópa en margir fræðimenn sem sem hafa skrifað um málefni tengd þessu eru þeirrar skoðunar að sé mismunandi menningarstraumum leyft að hafa áhrif hverjum á annan þ.e. mætast, muni hver um sig þróa eða rækta sín sérstöku menningareinkenni þeim mun sterkar. Þannig að það sé á misskilningi byggt að þar sem margir ólikir menningarhópar búa saman glati allir sérkennum sínum.  Af rannsókn sem gerð var hér á landi í fyrra á viðhorfum til innflytjenda var dregin sú niðurstaða að Íslendingar væru nokkuð sáttir við að fólk af erlendum uppruna settist að í landinu svo framarlega sem það skæri sig ekki úr í útliti og hegðun – það er það væri ekki sýnilegir útlendingar. Þetta samræmist nokkuð því sem birtist í fréttum af umræðunni um málefni innflytjenda á Norðurlöndunum. En þegar talað er um að vandamál fylgi því að innflytjendur frá ólíkum menningarsvæðum setjist að á vesturlöndum, og vandamálin séu til komin vegna þess að þeir séu svo ólíkir vesturlandabúum að þeir geti ekki aðlagast samfélaginu þá er bara verið að horfa á eina hlið málsins og gleymt að geta þess að það geta verið fyrir hendi í samfélaginu okkar ýmsir félagslegir og stofnanabundnir þættir sem hafa þá virkni að þeir útiloka innflytjendurnar með einhverjum hætti frá þátttöku í samfélaginu eða veita þeim ekki jafnt aðgengi að því. Eitt dæmi um þetta er að einstaklingur fái ekki þá félagslegu viðurkenningu á að telja sig Íslending af því hann eða hún hefur annars konar útlit en það sem meirihlutanum þykir dæmigert íslenskt útlit. Þetta er ekki óalgengt hvað viðkemur einstaklingum sem hafa verð ættleiddir erlendis frá og eru af öðrum eþnískum uppruna en meirihluti Íslendinga eða einstaklingar hverra foreldrar er af ólíkum uppruna en þeir eru sjálfir fæddir og uppaldir á Íslandi. Fyrir einstakling sem þekkir ekkert annað heimaland en Ísland er þessi höfnun á félagslegri viðurkenningu sem Íslendingur af því útlit þeirra og eþnískur uppruni samræmist ekki hugmyndum meirihlutans um hverjir tilheyra þjóð þeirra örugglega jafn áhrifamikill þáttur og menningarbundnar hefðir og aðrir þættir sem yfirleitt eru sagðar orsakir þess að ólíkir eþnískir hópar geti ekki búið í sama samfélagi, það sama á við um svokallaða aðra og þriðju kynslóð innflytjenda á Norðurlöndunum og í Vestur-evrópu.  Það er orðin staðreynd á vesturlöndum að samfélögin eru fjölmenningarleg og spurningin er því ekki hvort þessi þróun eigi að eiga sér stað heldur hvernig er hægt er að láta þessi samfélög virka.  Umræðan er rétt að hefjast á Íslandi þar sem sú þróun sem er að eiga sér stað hérna núna í átt til fjölmenningarlegs samfélags átti sér stað mun fyrr í nágrannalöndum okkar. Það sem mér finnst einkenna umræðu um þessi mál annars staðar í Evrópu er að hún er mjög einhliða og það er talað um innflytjendur sem orsakir ýmissa félagslegra vandamála fyrir utan að því er oft haldið fram að vera þeirra í landinu sé vandamál í sjálfu sér. Slík samfélagsskoðun fríjar meirihlutann í samfélaginu allri ábyrgð á þróun hins fjölmenningarlega samfélags og auk þess sem gleymt er að geta þess að ríki vestur evrópu hafa sóst eftir að fá innflytjendur til sín.   Skilgreining þjóða á sjálfum sér eins og hún birtist okkur í flestum ríkjum vestur evrópu, að þeim tilheyri bara einn eþnískur hópur er að hluta til komin til út af fordómum. Fordómum sem koma ekki eingöngu til af þeirri trú að þjóðin geti ekki verið samsett af ólíkum eþnískum hópum heldur einnig í skjóli trúarinnar á hreinleika eigin eþníska hóps sem hafi einkenni sem eru ekki einungis öðru vísi heldur sérstök og trú á menningarleg sérstöðu hópsins. Þjóðernisvitund Íslendinga hefur löngum verið talin einkennast að einhverju leiti af tilfinningu um ákveðna sérstöðu og hreinleika sem væri tilkominn vegna landfræðilegrar einangrunar. Með tilliti til fjölbreytileika menningarlegs og eþnísks uppruna  þess fólks sem byggir landsvæðið Ísland í samtímanum þá er þessi hugsun en ekki fjölbreytileikinn sem getur orðið að samfélagslegu vandamáli  Það er á okkar valdi að skilgreina okkur sem þjóð í samræmi við breyttan raunveruleika á Íslandi. Ríkisborgarar landsins eru af ólíkum eþnískum uppruna, með fjölbreyttan húðlit, aðhyllast margvísleg trúarbrögð og hafa fjölmörg móðurmál. Til þess að standa undir því að vera fjölmenningarlegt samfélag þar sem mannréttindavernd til handa öllum einstaklingum er ein af stoðum samfélagsins verðum við að hafna fordómum jafnt og mismunun byggðri á litarhætti, uppruna, trúarbrögðum og öllum öðrum þáttum. Ekki eingöngu með þeirri lagalegu vernd sem er þegar fyrir hendi heldur einnig með framfylgni við löggjöfina og með því að tryggja að allar einingar samfélagsins virki í samræmi við þá hugsun, það er leiðin til að reyna að tryggja félagslegt réttlæti.       

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband